Það væri mikið óráð að festa gengi íslensku krónunnar við annan gjaldmiðil eða körfu gjaldmiðla eftir að gjaldeyrishöftin hafa verið afnumin. Þetta segir Ragnar Árnason, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands.

Í grein sinni í Hjálmum, tímariti hagfræðinema sem fylgir Viðskiptablaðinu í dag , fer Ragnar yfir þá möguleika sem íslenska krónan stendur frammi fyrir í kjölfar haftaafnáms, sem nú er í fullum undirbúningi.

Ragnar segir að þrír kostir séu í stöðunni. Þeir séu fast gengi, fljótandi gengi og fljótandi gengi með stöðugleikastjórnun, sem hann nefnir „seigfljótandi“ gengi.

Slær fast gengi út af borðinu

Af þessum þremur kostum er Ragnar algerlega tilbúinn að slá fast gengi af borðinu, en hann segir slíkt fyrirkomulag vera skaðlegt fyrir íslenskan efnahag.

„Til að viðhalda föstu gengi án gjaldeyrishafta verður Seðlabankinn að vera viðbúinn því að kaupa og selja gjaldeyri þannig að hið fasta gengi sem hann hefur ákveðið samsvari jafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Þetta jafngildir því að hann með viðskiptum sínum auki eftirspurn og framboð á gjaldeyri þannig að það gengi sem hann hefur ákveðið sé markaðsjafnvægi,“ skrifar Ragnar í Hjálma.

„Þessi gengisstefna hefur afar mikla galla. Þeir stafa af m.a. því að það er nánast óhugsandi að hið fasta gengi sé ætíð jafnframt hið rétta gengi krónunnar, þ.e. ótruflað markaðsjafnvægi. Sé ekki svo jafngildir hið fasta gengi því að gengi krónunnar sé falsað. Ef Seðlabankinn þarf að kaupa eða selja gjaldeyri til að viðhalda hinu fastákveðna gengi er hið opinbera í rauninni að falsa verð krónunnar og valda með því þjóðhagslegu tjóni.“