Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi nýverið frá sér yfirlýsingu sem var samin eftir tveggja vikna vinnu nefndarinnar hér á landi. Capacent greindi inntak yfirlýsingarinnar í vikulegu skuldabréfayfirliti sínu.

Að sögn greiningaraðila vakti yfirlýsingin nokkra athygli Capacent, þá sér í lagi áttunda málsgrein sjóðsins en þar beinir sjóðurinn orðum sínum til Seðlabanka Íslands og „mælir með vaxtalækkun undir rós.“

„Sjóðurinn segir að Seðlabankinn hafi haldið uppi aðhaldssamri peningastefnu en bendir á að töluverður þrýstingur sé til áframhaldandi styrkingar krónunnar og í því ljósi gæti verið svigrúm til vaxtalækkunar. Hagfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru ekki hagsmuna hagfræðingar með meðfætt vaxtalækkunar blæti. Orð þeirra vega gjarnan þungt innan stjórnsýslunnar. Þetta er því ekki jafn reglubundið og suð hunangsflugu á sólríkum sumardegi eða suð hagsmunasamtaka þegar Seðlabankinn herðir peningalegt aðhald sitt á efnahagslegu sumri,“ segir í yfirliti Capacent.

Einnig vakti þriðja málsgrein AGS athygli greiningaraðila Capacent. Þar leggur sjóðurinn til að eftirlit með bankastarfsemi verði hjá Seðlabankanum og segir meðal annars að Fjármálaeftirlitið sé ekki nógu vel einangrað pólitískum afskiptum án þess að útskýra það frekar. „Í ljósi umræðu síðustu daga mætti ætla að slík athugasemd væri tekin alvarlega,“ segir í yfirlitinu.

Rólegheit á skuldabréfamarkaði

Capacent bendir jafnframt á að gengi óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði lítillega eða um 0,28% að meðaltali í síðustu viku þrátt fyrir um 1,6% gengisstyrkingu. Að mati Capcent hafa líkurnar á vaxtalækkun 17. maí aukist. Capacent veðjar á 25 punkta vaxtalækkun. Stóra spurningin að mati Capacent er hvort að hún verði 17. maí eða 14. júní.