Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, er kominn með nóg af áralöngum vandræðum í Landeyjahöfn og segir þau valda því að fyrirtæki í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum séu á leið í gjaldþrot. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV

Fátt bendir til þess að Landeyjahöfn verði opin um páskana, höfnin er full af sandi og illa hefur gengið að dýpka hana. Eru Vestmannaeyingar búnir að fá nóg og bitnar léleg höfn á ferðaþjónustu í bænum.

„En á meðan ekkert er gert, þá gerist ekkert, og við erum í sömu stöðunni ár eftir ár eftir ár. Og nú hefur dropinn fyllt mælinn. Það þýðir einfaldlega það að við getum þetta ekki lengur. Nú eru fyrirtæki hreinlega að fara á hausinn," sagði Elliði við RÚV.

„Það voru hér miklar fjárfestingar, til dæmis í ferðaþjónustu, á þeim forsendum að Landeyjahöfn myndi gera það sem henni var ætlað að gera. Þessar fjárfestingar hafa ekki gengið eftir vegna þess að fólk kemst ekki hingað á meðan Landeyjahöfn er lokuð. Ferðamenn vilja sigla í gegnum Landeyjahöfn. Og í viðbót við þessi beinu fjárhagslegu áhrif á fyrirtæki er beinn kostnaður ríkisins um milljón krónum meiri hvern dag sem siglt er í Þorlákshöfn miðað við hvern dag sem siglt er í Landeyjahöfn.“

Vill Elliði tafarlaust fá nýja ferju í stað Herjólfs og að breytingar verði gerðar á höfninni sem tryggja að ný ferja geti siglt þangað.