Heimilt verður að draga tap frá hagnaði af afleiðuviðskiptum innan tekjuárs, samkvæmt frumvarpi um breytingu á lögum um tekjuskatt sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir frumvarpi þessa efnis í dag. Fari frumvarpið óbreytt í gegn er um breytingu að ræða á skattalögum. Yfirskattanefnd hefur fram til þessa ekki heimilað þetta fyrirkomulag nema um lögaðila sé að ræða. Þá hafa nokkur mál af þessum toga ratað fyrir dóm þar sem fjárfestar voru sakaðir um að hafa vantalið tekjur sínar í ýmsum viðskiptum. Þótt málin séu af ýmsum toga einkennast þau að hluta af því að tap af einstökum viðskiptum var dregið frá hagnaði af öðrum sem sami einstaklingur átti í og fjármagnstekjuskattur greiddur af útkomunni.

Á meðal þeirra mála sem VB.is hefur fjallað um eru m.a. tengd Bjarna Ármannssyni, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Eiríki Sigurðssyni, Ragnari Þórissyni hjá vogunarsjóðnum Boreas Capital og fleirum. Mennirnir voru sakaðir um að hafa vantalið tekjur sínar um tugi milljóna króna. Mennirnir hlutu skilorðsbundna dóma auk sektargreiðslu.

Í frumvarpinu sem Bjarni mælti fyrir í dag er lögð til sú breyting á gildandi ákvæðum skattalaga að litið verði á tekjur af afleiðusamningum sem söluhagnað/tap í stað vaxtatekna/gjalda að undanskildum vaxtaskiptasamningum sem taka mið af breytingum á vöxtum sem undirliggjandi verðmæti. Það leiðir til þess að staðgreiðsla af afleiðuviðskiptum fellur brott í þeim tilfellum þar sem tekjur af afleiðusamningum teljast til söluhagnaðar.