Fyrir um tveimur árum keypti framtakssjóður í rekstri sjóðstýringafélagsins Stefnis, ásamt hópi fjárfesta, hluta af innlendri starfsemi Norvik í gegnum félagið Festi hf. sem varð nýtt móðurfélag fyrirtækjanna. Á meðal þeirra eigna sem Festi tók yfir var Kaupás, sem rekur Krónuna, Nóatún og Kjarval, raftækjaverslunin Elko, íþróttavörubúðin Intersport, vöruhótelið Bakkinn auk fasteignasafns. Þó nokkrar breytingar hafa orðið á fyrirtækjunum frá því að Festi tók yfir starfsemi þeirra, bæði í innviðum þeirra og ytra byrði.

Forstjóri Festi, Jón Björnsson, hefur verið við stjórnvölinn frá upphafi fyrirtækisins en hann á að baki víðtæka reynslu úr heimi smásölunnar. Síðast var hann forstjóri ORF Líftækni en fyrir þann tíma gegndi hann stöðu forstjóra Magasin du Nord í Kaupmannahöfn frá árinu 2005 til 2012. Þar áður var hann framkvæmdastjóri Hagkaupa og forstjóri Haga.

Mikill lærdómur

Spurður um tíma sinn hjá Magasin du Nord segir hann að tími hans hjá fyrirtækinu hafi verið hans mesti lærdómur í smásölu. „Ég hef sagt það að stærsta ástæðan fyrir því að ég náði árangri í því verkefni var sú að ég var ekki Dani,“ segir hann. „Ég kom þarna inn sem fimmti forstjórinn á sex árum og forverar mínir höfðu alltaf nálgast þetta eins og voru fastir í því að reyna að endurskapa gamla hugmynd en samkeppnisumhverfið var gjörbreytt. Ég sá þetta sem verslun með góðar vörur og óánægða kúnna. Ég lýsti því þannig að Magasin var eins og gömul frænka. Þér er rosalega annt um hana, þú vilt vita hvernig henni líður en þú heimsækir hana aldrei. Það þurfti að gera Magasin spennandi í nýju samkeppnisumhverfi.

Þetta kenndi manni það að það eina sem skiptir máli í svona smásölurekstri er að kúnninn verður að hafa ástæðu til að koma til þín. Það er ekkert sjálfgefið að hann muni bara koma. Þú þarft að ávinna þér traust hans og virðingu. Ég lærði það að ástæðan fyrir því að fyrirtækjum gengur illa er ekkert alltaf fólkið sem vinnur þar heldur umgjörðin sem eigendur skapa. Ég held að við höfum náð að skapa ákveðna umgjörð sem leiddi af sér ákveðna dýnamík sem leiddi það af sér að margt fólk sem menn töldu ekki hæft var í rauninni bara mjög hæft. Síðan árið 2009 er Magasin búið að toppa sig á hverju ári. Þetta er sama fólkið og var með mér þarna þegar ég hætti árið 2012 og helmingurinn af því fólki er sama fólkið og var með mér árið 2005 þegar fyrirtækið var að tapa miklum peningi. Það var ungt fólk og mjög hæft en umgjörðin var ekki sú rétta.“

Nánar er rætt við Jón í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .