Alterra, áður Magma Energy, hefur undirritað viljayfirlýsingu um að kaupa eigið skuldabréf af Reykjanesbæ en bærinn eignaðist bréfið þegar hann seldi Geysi Green hlut í HS Orku. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Alterra Power, sem áður hét Magma Energy, vill kaupa skuldabréf af Reykjanesbæ sem fyrirtækið gaf sjálft út. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð 8. september síðastliðinn eftir að bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti drög að sölusamningnum.

Að því er fram kemur í Fréttablaðinu hefur Alterra nú 160 daga til að finna fjármagn til að ganga frá kaupunum. Reykjanesbær eignaðist skuldabréfið þegar hann seldi Geysi Green Energy hlut sinn í HS Orku sumarið 2009. Sá hlutur rann síðan síðan inn í Alterra þegar fyrirtækið eignaðist hlut Geysis.

Stofnvirði bréfsins er 8,3 milljarðra króna en bókfært virði þess í efnahagsreikningi Reykjanesbæjar er 5,8 milljarðar króna. Það er meðal annars tengt álverði og fer uppgreiðsluupphæð bréfsins eftir þróun þess. Skuldabréfið er til uppgreiðslu 2016. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir í samtali við Fréttablaðið kaupverðið ekki verða undir því virði sem skuldabréfið sé bókfært á, eða 5,8 milljarðar króna. Alterra hafi fengið upphaflega 80 daga til að ganga frá kaupunum. Samkvæmt viljayfirlýsingunni er þó hægt að lengja þann frest tvívegis um 40 daga. "Þetta eru því 160 dagar í heildina frá undirritun sem þeir hafa til að ganga frá þessu verkefni."

Alterra Power á 75 prósenta hlut í HS Orku í gegnum sænskt dótturfélag, Magma Energy Sweden A.B. Fyrirtækið seldi félagi í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða 25 prósenta hlut í HS Orku í sumar á 8,1 milljarð króna. Til viðbótar eiga sjóðirnir forkaupsrétt á 8,4 prósenta hlut til viðbótar fyrir 4,7 milljarða króna.