Magma Energy, sem nýverið breytti nafni sínu í Alterra Power, hefur lýst yfir vilja til þess að nota söluandvirði á fjórðungshlut sínum í HS Orku til að kaupa skuldabréf, sem Magma gaf út til Reykjanesbæjar, að fullu eða hluta. Þetta kemur fram í bréfi sem Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sendi eftirlitsstofnun með fjármálum sveitarfélaga þann 4. apríl síðastliðinn.

Í bréfinu, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, gerir Árni grein fyrir helstu verkefnum sem unnið væri að til að styrkja fjármálastöðu bæjarfélagsins.

Að fullu eða hluta

Þar segir Árni meðal annars að „eigendur Magma hafa sýnt áhuga á að kaupa bréfið að fullu eða hluta og tengist það mögulegri sölu þeirra á hlut í HS orku til lífeyrissjóðanna. Niðurstöðu af þeim viðræðum er að vænta mjög fljótlega. Þá hafa fjárfestingafyrirtæki sýnt aukinn áhuga á kaupum á bréfinu. Eins og áður hefur verið bent á er einnig áhugaverður möguleiki fyrir Reykjanesbæ að halda bréfinu og njóta fullrar uppgreiðslu eftir aðeins fimm ár“.

Reykjanesbær eignaðist bréfið þegar hann seldi Geysi Green Energy hlut sinn í HS Orku. Magma yfirtók síðan það skuldabréf þegar félagið eignaðist hlut Geysis Green í orkufyrirtækinu.

Bókfært virði bréfsins er sem stendur 5,7 milljarðar króna en það er meðal annars tengt við heimsmarkaðsverð á áli. Stofnvirði þess er hins vegar 8,3 milljarðar króna.

Árlega eru greiddir vextir af skuldabréfinu, sem er til uppgreiðslu árið 2016. Í fyrra greiddi Magma Reykjanesbæ 271 milljón króna í vexti vegna þess.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.