Magnús Eðvald Björnsson tekur við sem nýr forstjóri Men & Mice, af Kristbjörgu Eddu Jóhannsdóttur. Magnús hefur síðastliðin fimm ár verið í stjórnunarstöðu hjá Oracle í Bandaríkjunum.

Áður starfaði hann í átta ár hjá EMC Corporation í Bandaríkjunum þar sem hann gegndi bæði þróunar- og stjórnunarstöðum. Jafnframt hefur Magnús einnig sinnt ráðgjöf á sviði þróunarvinnu og nýsköpunar.

Magnús er með doktors- og meistaragráðu í tölvunarfræði frá Brandeis háskólanum í Bandaríkjunum, sem og BS-gráður í eðlisfræði og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

„Men & Mice sérhæfir sig í þróun og sölu hugbúnaðarlausna fyrir DNS-, DHCP- og IP-innviði (DDI) alþjóðlegra stórfyrirtækja. Félagið er eitt 10 fyrirtækja sem Gartner metur sem alþjóðlega birgja á þessum markaði og er markaðurinn fyrir DDI lausnir í hröðum vexti,“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

„Viðskiptavinirnir eru m.a. Microsoft, Intel, Xerox, Hospital Corporation of America, IMF, Robert Bosch, Cincinnati Bell, Nestlé, Harvard Business School, PPG Industries, InterContinental Hotels Group og Kimberly-Clark Corporation.“