Magnús Ragnarsson, annar tveggja aðstoðarmanna Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Markaðssetningar- og vörusviðs Símans. Hann tekur við starfinu af Birnu Ósk Einarsdóttur. Tiltölulega stutt er síðan Magnús var ráðinn aðstoðarmaður Illuga eða í september í fyrra.

Hvorki hefur náðst í Illuga né Magnús vegna málsins.

Hann er 51 árs leikari að mennt frá New York og MBA frá Háskóla Íslands. Síðastliðin 15 ár hefur hann gert allt annað en að leika því hann hefur að mestu starfað í rekstri og vöruþróun á sviði tækni og afþreyingar.

Magnús var forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Oz við markaðssetningu hins nýja OTT sjónvarpsapps félagsins. Áður var hann framkvæmdastjóri Gogogic, tölvuleikjafyrirtækis sem smíðaði leiki fyrir samfélagsmiðla og snjallsíma. Áratuginn þar á undan var hann framkvæmdastjóri Latabæjar, SkjásEins og framleiðslufyrirtækisins Pegasusar.