Magnús Scheving er í ítarlegu viðtali við 25 ára afmælistímarit Viðskiptablaðsins. Í viðtalinu ræðir hann meðal annars um latabæjarhagkerfið, sem var sett á stofn í samvinnu við Glitni og var við lýði í fjögur ár. Fyrir utan að hægt var að „kaupa" hollustuvöru í búðum Hagkaups og Bónus með Lató-seðlum, voru þeir m.a. gjaldgengir í sundlaugar, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu. „Lató gerði Seðlabankann alveg brjálaðan," segir Magnús og hlær.

„Þetta var hollasta hagkerfi í heimi, í samkeppni við fallandi krónu. Hugmyndin var auðvitað að fá börn til að læra að spara og á sama tíma borða hollari mat og minnka matarsóun. Börn settu pening á sinn bankareikning og fengu í staðinn Lató-seðla sem hægt var að kaupa holla hreyfingu eða matvöru. En þessu fylgdi brjáluð vinna framan af því að ég og fáeinir aðrir starfsmenn Latabæjar þurftum að hlaupa á milli búða og stilla upp vörunum og stöndum og öðru því sem þessu fylgdi. Á sama tíma efndum við til Orkuátaks með sjónvarpsþáttum á RÚV, og einnig sendum við öllum börnum á landinu á aldrinum 5-7 ár svokallaða orkubók með límmiðum. Þau áttu síðan að merkja við í samræmi við mataræði sitt og hreyfingu á hverjum degi næstu tvær vikurnar. Börnin gátu einnig gert þetta á Netinu, sem leiddi í ljós að hvorki meira né minna en 94% af þessum aldurshópi tóku virkan þátt í átakinu, sem ég held að hljóti að vera heimsmet. Ég held að þetta sé magnaðasta heilsuátak sem gert hefur verið í heiminum, og af öllu sem ég gerði á þessum tíma er ég stoltastur af því."

Voru öll þessi verkefni að skila þér háum tekjum á þessum tíma?

„Alls ekki, mikið af þessu var gefið eða notað sem prufuvörur og þegar tekjur komu inn voru þær alltaf nýttar í að þróa fyrirtækið eða hugmyndina áfram. Stærsti hlutinn fór beint inn í fyrirtækið aftur því þetta hefur alltaf snúist um að skapa og framkvæma og virkja fjölskyldur, sérstaklega börn, til þess að tileinka sér betri lífsstíl.

Tilvera mín snerist vitaskuld meira eða minna um Latabæ, en fyrst um sinn var Latibær áhugamál mitt, nokkurs konar aukaverkefni ofan á smíði, kennslu, fyrirlestra og skemmtanir. En þegar hugmyndin stækkaði og óx komu margir aðrir stórkostlegir starfskraftar að Latabæ. Ég get nefnt Ágúst Frey Ingason, en við leiddum sókn Latabæjar fyrstu árin, og svo komu fleiri til sögunnar sem lögðu hönd á plóginn, Máni Svavarsson tónskáld, Snorri Freyr Hilmarsson, Emil Pétursson á Verkstæðinu og ótal fleiri, þar á meðal þáverandi sambýliskona mín. Þegar við rákum upptökuver í Garðabæ var lykilmaður þar Hannes Karl Björgvinsson, einn mesti reynslubolti í stúdíóvinnu á Íslandi. Ég verð sérstaklega að nefna Stefán Karl Stefánsson leikara, sem var einn mesti snillingur sem ég hef kynnst. Við megum heldur ekki gleyma því að Latibær hefði aldrei orðið að veruleika ef Jón Ásgeir Jóhannesson hefði ekki fjárfest í hugmyndinni. Ég var alltaf umkringdur ótrúlega hæfileikaríku og góðu fólki, sem veitti ekki af því að ég gat verið ansi kröfuharður, hafandi sterka sýn um framtíð Latabæjar sem ég vildi að sjálfsögðu miðla áfram og ekki gefa neinn afslátt af henni."

Nánar er rætt við Magnús Scheving í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið .