Eignarhaldsfélag í eigu Magnúsar Kristinssonar, hefur samið um kaup á 40% hlut í Arctic Trucks. Emil Grímsson, aðaleigandi Arctic Trucks, mun áfram verða meirihlutaeigandi í félaginu.

Magnús Kristinsson, sem er aðaleigandi Toyota á Íslandi, segir í tilkynningu að kaupin í Arctic Trucks fela í sér tækifæri til að styðja enn frekar við þær fyrirætlanir sínar að sækja á erlenda bílamarkaði. ?Að sjálfsögðu munu kaup mín í fyrirtækinu styðja við starfsemi okkar hér á landi. Við búum yfir mjög öflugu breytingaverkstæði hér hjá Toyota og eignarhald mitt í Arctic Trucks mun að sjálfsögðu enn frekar efla skilvirkni breytinga á Toyota jeppabifreiðum. Það er hinsvegar ekkert launungamál að ég sé gríðarlega skemmtileg tækifæri erlendis með Arctic Trucks, enda vörumerkið þegar þekkt utan Íslands sem gerir slíka sókn auðveldari en ella.? segir hann í tilkynningu.

Arctic Trucks er nú með starfsemi í þremur löndum; á Íslandi, í Noregi og í Lettlandi en alls starfa um 55 manns hjá félaginu. Arctic Trucks sérhæfir sig í lausnum fyrir áhugamenn um jeppa og hefur að markmiði að auka notagildi fjórhjóladrifinna bifreiða.

?Mér líst mjög vel á að fá öflugan aðila sem Magnús Kristinsson inn í fyrirtækið,? segir Emil Grímsson meirihlutaeigandi Arctic Trucks. ?Rekstur fyrirtækisins gengur vel og vöxtur félagsins hefur verið mikill síðustu misserin. Við stefnum á enn frekari útrás á nýja markaði á næstu mánuðum og mun aðkoma Magnúsar Kristinssonar opna spennandi tækifæri til vaxtar meðal annars gegnum tengingar við ýmsa innflutningsaðila Toyota bifreiða um gjörvalla Evrópu.