Magnús Scheving og Ragnheiður Pétursdóttir Melsteð hefur verið gert að skipta búi sínu til jafns milli sín. Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu í gær. Þannig var niðurstaða héraðsdómstóls í nóvember staðfest. Vísir greindi fyrst frá þessu.

Virði búsins nemur einhverjum hundruðum milljóna króna, en sambúð þeirra stóð í um 24 ár. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að nánast allar eignir þeirra hafi orðið til með framlagi þeirra beggja á meðan á sambúð stóð.

Til að mynda varð Latibær til á tímabilinu, en fyrirtækið Turner keypti fyrirtækið árið 2011 fyrir 2,7 milljarða íslenskra króna. Turner er hluti af Time Warner-framleiðslusamsteypunni. Öðrum kröfum Ragnheiðar og Magnúsar var vísað frá.