*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Fólk 17. janúar 2018 18:58

Magnús Örn biður um 2. sætið

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, Magnús Örn Guðmundsson, býður sig fram í prófkjörinu 20. janúar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Magnús Örn Guðmundsson viðskiptafræðingur býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisfélags Seltirninga sem haldið verður 20. janúar næstkomandi. Magnús Örn situr í bæjarstjórn Seltjarnarness, er formaður íþrótta- og tómstundanefndar og situr í skólanefnd bæjarins. Hann starfar sem forstöðumaður hjá Stefni hf.

Magnús leggur áherslu á lága skatta, gagnsæja og skilvirka stjórnsýslu, hátt þjónustustig í grunnþjónustu og forgangsröðun framkvæmda án skuldasöfnunar að því er segir í fréttatilkynningu.

Hann leggur jafnframt áherslu á að skipulagsmál þurfi að nálgast með meiri yfirvegun í sátt við bæjarbúa og vill raunsæi í samgöngumálum.

Magnús vill jafnframt vilja bæta kjör og aðbúnað kennara. Hann vill einkarekinn ungbarnaleikskóla á Seltjarnarnes og að tryggja áfram fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf í bænum. Magnús leggur auk þess áherslu á að þjónusta við elstu íbúa bæjarins sé sem allra best en eldri borgarar eru hátt hlutfall bæjarbúa.

Magnús Örn segist vilja lækka fasteignaskatta umtalsvert. Álagningarstuðull fasteignaskattsins hafi hækkað um 16% á kjörtímabilinu en fasteignaverð hafi hins vegar hækkað um meira en 50% á síðustu 5 árum.

Með hækkandi launum síðustu misseri segir hann að skapast hafi svigrúm til lækkunar útsvars, en Seltirningar greiða eitt hæsta útsvar á íbúa þó álagningarprósentan sé lægri en hjá flestum sveitarfélögum.