Síðan framkvæmdastjóri hjá Icelandair Group seldi hlutabréf í félaginu fyrir 130 milljónir hefur markaðsvirði bréfanna lækkað um 40%.

Magnús Kr. Ingason, sem er framkvæmdastjóri Fjárvakurs, dótturfélags Icelandair Group, seldi 5 milljón hluti í flugfélaginu í byrjun september síðastliðnum en þá var markaðsvirði bréfanna á bilinu 129 til 133 milljónir króna.

Höfðu bréfin þá lækkað um 30% frá því í apríl í fyrra en við lokun markaða í gær hafði verðfall bréfanna numið um 40% síðan hann seldi að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Magnús, sem er einn af átta manna framkvæmdastjórateymi félagsins, seldi bréfin dagana 5. til 7. september, en þremur vikum síðar seldi Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarmaður í félaginu 400 þúsund hluti líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Viðskipti Magnúsar voru tilkynnt til regluvarðar Icelandair sem upplýsti Fjármálaeftirlitið um þau.