Magnús Scheving Thorsteinsson, framkvæmdastjóri Klakka, mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Í tilkynningu frá Klakka kemur fram að starfslokin séu í sátt við hluthafa og stjórn félagisns.

„Ég lít ánægður um öxl og tel að starfsmenn geti verið stoltir af þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð á undanförnum árum. Ég hef verið forstjóri félagsins í sjö ár og mér finnst vera kominn tími til að skipta um vettvang og snúa mér að nýjum verkefnum. Mikið hefur áunnist á undanförnum árum.  Við höfum endurskipulagt, byggt upp og selt eignir og fengið mjög gott endurgjald fyrir þær. Ljóst er að afraksturinn er langt umfram þær heimtur sem gert var ráð fyrir í nauðasamningi félagsins árið 2010. Framundan er  stefnumótun fyrir Lykil fjármögnun hf., en fyrir liggur endurskilgreina og efla enn frekar starfsemi félagsins áður en efnt verður til nýs söluferlis. Hefst sú vinna fljótlega. Ég hef ákveðið að farsælt sé að leiðir skilji á þessum tímamótum og vil þakka bæði starfsfólki Klakka og öðru samstarfsfólki fyrir ánægjulegt samstarf," er haft eftir Magnúsi í tilkynningu fra Klakka.

Helsta eign Klakka er eignaleigan Lykil. Viðræðum um sölu Klakka á Lykli til TM var slitið í sumar en Fréttablaðið greindi frá því að félagið sé hætt við sölu á Lykli. Vogunarsjóðurinn Davidson Kempner er aðaleigandi Klakka.

Mikil umræða skapaðist um áform Klakka um að greiða hundruð milljóna króna bónusa í desember á síðasta ári en félagið féll í kjölfarið frá áformunum . Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun ársins að Fjármálaeftirlitið taldi að bónusarnir hefðu ekki samræmst lögum.