*

sunnudagur, 24. júní 2018
Innlent 8. janúar 2017 16:05

Magurt ár á markaði

Árið 2016 var talsverður eftirbátur 2015 á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Alexander Freyr Einarsso
Haraldur Guðjónsson

Talsvert minni ávöxtun var á íslenskum hlutabréfamarkaði á nýafstöðnu ári heldur en árið 2015. Flest stærstu félög aðalmarkaðar lækkuðu mikið í verði og alls lækkaði markaðsvirði þeirra 16 félaga sem skráð voru á aðalmarkað í ársbyrjun 2016 um 40,8 milljarða króna, úr 840,6 milljörðum króna í 799,8 milljarða.

Árið 2015 var eitt besta ár sögunnar á íslenskum hlutabréfamarkaði og hækkaði OMXI8 úrvalsvísitalan um 43,2 prósent. Flugfélagið Icelandair hækkaði til að mynda um 65,4 prósent og Marel hækkaði um heil 83,7 prósent. Þessi tvö félög komu hins vegar talsvert verr undan árinu 2016, enda virðist árið hafa verið erfiðast fyrir þau fyrirtæki sem stóla að miklu leyti á tekjur í erlendri mynt.

Erfitt sumar

Árið 2016 byrjaði nokkuð dapurlega á íslenskum hlutabréfamarkaði. Úrvalsvísitalan var 1880,4 í árslok 2015 en hrapaði allsvakalega fyrstu daga nýs árs niður í 1729,7 þann 15. janúar. Alls var um að ræða átta prósenta fall á einungis tveimur vikum. Eftir það tók markaðurinn við sér á nýjan leik og úrvalsvísitalan náði hámarki í 1951,6 28. apríl. Eftir það tók hún hins vegar talsverða dýfu yfir sumarið og var hún aftur komin niður í 1729 í lok ágúst. Þann 30. september náði úrvalsvísitalan lágmarki í 1646,4 og endaði hún síðan árið í 1710,6.

OMXI8 úrvalsvísitalan samanstendur af átta fyrirtækjum á íslenskum hlutabréfamarkaði: Högum, HB Granda, Icelandair, Marel, N1, TM, Sjóvá og VÍS. Níu önnur félög eru á markaði: Eik, Eimskip, Fjarskipti (Vodafone), Nýherji, Reitir, Reginn, Síminn, Skeljungur og Össur. Skeljungur fór á markað rétt fyrir árslok 2016 og er því ekki með í þessari greiningu. Í Viðskiptablaðinu 4. ágúst sl. kom í ljós að félögin sem mynda úrvalsvísitöluna höfðu tapað 74,3 milljörðum króna af markaðsvirði sínu frá hámarkinu þann 28. apríl og þar til í ágústbyrjun.

Lægst ávöxtun hjá HB Granda

Hlutabréf HB Granda báru verstu ávöxtunina á íslenskum hlutabréfamarkaði á síðasta ári. Alls lækkuðu bréfin í verði um 36,74 prósent. Ljóst er að fyrirtækið, sem er stærsti kvótahafi á Íslandi, hefur mátt líða fyrir styrkingu krónunnar, enda eru nær allar tekjur fyrirtækisins í erlendri mynt. Alls minnkaði markaðsvirði HB Granda um 27,4 milljarða króna.

Ávöxtunin var næstverst hjá Icelandair Group, sem jafnframt tapaði langmestu markaðsvirði. Bréf félagsins lækkuðu um 34,75% eftir miklar hækkanir undanfarin ár og enduðu árið í 23,1. Alls lækkaði markaðsvirði Icelandair um 61,2 milljarða króna á árinu, en flestir stærstu eigendur félagsins eru lífeyrissjóðir auk sjóðstýringarfyrirtækisins Stefnis.

Hlutabréf í Össuri lækkuðu um 17,9% og lækkaði markaðsvirði félagsins um 12,8 milljarða króna ef gert er ráð fyrir því að 34% bréfa félagsins séu á íslenskum markaði. Össur er einnig skráð á markað í Danmörku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.