„Mér finnst miklar fréttir í því að úthluta eigi makrílkvóta aðeins til sex ára, sem er grundvallarbreyting á því kerfi sem við höfum búið við,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, um nýtt makrílfrumvarp í samtali við Morgunblaðið .

Kolbeinn segir að núverandi kerfi hafi stuðlað að ákveðnum varanleika og festu í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, sem geri þeim kleift að fara í fjárfestingar og umgangast auðlindina á umhverfisvænan hátt. Sex ár séu skammur tími í þessari atvinnugrein og bjóði ekki upp á þá festu í rekstri sem samtökin vilji hafa í greininni.

Einnig telur Kolbeinn einkennilegt að verið sé að leggja sérstakt 10 króna viðbótargjald á hvert kíló af makríl næstu sex árin.

„Heildargjaldið á makríl verður nálægt 18 krónum sem er gríðarlega mikið til samanburðar við þær 13 krónur sem greiddar eru af þorki í dag. Markaðsverð á þorski er milli 300 og 400 krónur en markaðsvirði makríls er 50 til 70 krónur, sem sýnir hversu hátt gjaldið er og krefst að mínu mati endurskoðunar.“