Núna enn eitt árið er ósamkomulag um veiðar úr öllum mikilvægustu deilistofnum í Norðaustur-Atlantshafi. Veiðiþjóðirnar hafa sett sér eigin kvóta sem samanlagt eru langt umfram ráðgjöf vísindamanna. Í makríl stefnir í 1,1 milljón tonna afla sem er 64% umfram vísindaráðgjöf, og kolmunnaaflinn verður einnig 1,1 milljón tonna sem er 39% meira en vísindamenn ráðleggja.

"Það er verið að leika sér að eldinum," segir Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar í samtali í nýjustu Fiskifréttum. Hann segir að vísindaráðgjöfin gangi út á að hámarka afrakstur stofnanna til lengri tíma og að hafa nógu stóran hrygningarstofn til að auka líkur á góðri nýliðun. Ef nýliðun bresti eins gerðist í kolmunnanum nýlega færi aflinn niður úr öllu valdi.

"Makrílstofninn er nokkuð stór núna og það er Íslendingum í hag að hann verði það áfram," sagði Þorsteinn.

Sjá nánar í Fiskifréttum sem komu út í dag.