Árleg mæling á makrílstofninum hefst í dag, 1. júlí, og stendur út mánuðinn. Markmið leiðangursins er að kortleggja útbreiðslu og magn makríls og annarra uppsjávarfiskistofna í Norðaustur Atlantshafi meðan á ætisgöngum þeirra um Norðurhöf stendur.

Fimm rannsóknaskip fyrir hönd fjögurra landa fara yfir útbreiðslusvæðið og leggja mat á stærð stofnsins. Skipin eru Árni Friðriksson frá Íslandi, Tróndur í Götu frá Færeyjum, færeyska skipið Finnur fríði er leiguskip Grænlendinga og svo eru það tvö skip frá Noregi, Vendla og M. Ytterstad. Rannsóknarsvæðið er alls þrjár milljónir ferkílómetra að stærð.

Í frétt í Fiskeribladet/Fiskaren segir að spennandi verði að sjá hversu langt í norður útbreiðslusvæði makrílsins nær, en auk makríls verður hugað að kolmunnastofninum og reynt að magnmæla hann með bergmálsmælum sem er nýjung. Þá verða fleiri tegundir kortlagðar í leiðangrinum, eins og til dæmis norsk-íslenska síldin, með það fyrir augum að setja þær í vistfræðilegt samhengi og einnig verður hugað að áhrifum hvala á þrjár stóru uppsjávartegundirnar, makríl, síld og kolmunna.

Minna mældist í fyrra

Í leiðangrinum í fyrra var heildarvísitala makríls (lífmassi) á svæðinu metin um 7,7 milljón tonn, þar af voru tæp 2,9 milljón tonn innan íslenskrar efnahagslögsögu eða rúm 37% af heildarvísitölunni. Heildarvísitalan var 1,3 milljón tonnum lægri en árið á undan en þá var hún sú hæsta síðan rannsóknirnar hófust árið 2007. Vísitala makríls innan íslenskrar lögsögu hafði hins vegar aldrei verið eins há og í fyrra, en síðustu þrjú ár var vísitalan þar um 1,6 milljón tonn. Á öðrum svæðum var magnið minna en árið á undan. Mesta þéttleika makríls var að finna suður af Íslandi og náði útbreiðslan þar sunnar en áður hefur sést.

Í viðtali við Leif Nöttestad, helsta makrílsérfræðing Norðmanna, í Fiskeribladet/Fiskaren kemur fram að óvíst sé hvort lægri mæling í fyrra hafi stafað af köldum sjó á útbreiðslusvæðinu eða minnkandi stofni.