Makrílveiðum handfærabáta er að ljúka. Alls hafa bátarnir veitt um 3.160 tonn, miðað við stöðuna í byrjun vikunnar, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Bátarnir hafa aðeins veitt um 45% af um 7 þúsund tonna kvóta sem var til ráðstöfunar í þessum potti. Ekkert veiddist hins vegar af 2 þúsund tonna potti sem bætt var við og handfærabátar gátu leigt aflaheimildir úr.

Aflahæsti báturinn er Siggi Bessa SF með 175 tonn. Í öðru sæti er Dögg SU með 163 tonn og Brynja II SH er í þriðja sæti með 155 tonn. Rúmlega 50 bátar tóku þátt í veiðunum að þessu sinni. Tólf bátar veiddu 100 tonn eða meir. 25 efstu bátarnir eru með rúm 2.500 tonn.

Verð á makríl til handfærabáta hefur verið um og innan við 50 krónur á kílóið í sumar. Aflaverðmæti þeirra í heild samkvæmt því gæti verið um 155 milljónir króna.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.