Mál Bandalags háskólamanna (BHM) gegn íslenska ríkinu verður tekið fyrir í Hæstarétti í dag, en fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

BHM stefndi ríkinu vegna lagasetningar á verkfallsaðgerðir félagsmanna sem þá höfðu staðið yfir í 68 daga. Telur BHM að lögin brjóti í bága við stjórnarskrána og Mannréttindasáttmála Evrópu, en héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ríkinu hefði verið heimilt að stöðva verkföllin með lögum vegna almannahagsmuna.

Samkvæmt lögunum mun gerðardómur úrskurða í kjaradeilu BHM og ríkisins þar sem samningar milli aðila náðust ekki á tilsettum tíma. Frestur gerðardóms til að kveða upp úrskurð rennur út undir lok vikunnar.