*

mánudagur, 20. maí 2019
Innlent 20. apríl 2019 13:33

Mál kyrrsettu flugvélarinnar fyrir dóm

Flugvélaleigufyrirtækið ALC hefur höfðað mál fyrir dómi vegna kyrrsetningar Isavia á flugvél þess sem Wow leigði.

Ritstjórn
Flugvélin sem um ræðir er af gerðinni Airbus A321-211 og var framleidd árið 2016.
Haraldur Guðjónsson

Bandaríska flugvélaleigufyrirtækið Air Lease Corporation hefur lagt fram aðfararbeiðni á hendur Isavia vegna kyrrsettrar flugvélar í eigu félagsins, sem Wow air hafði á leigu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu nú í morgun.

Aðfararbeiðnin, sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjaness, er sögð verða tekin fyrir næstkomandi þriðjudag.

Isavia kyrrsetti vélina í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins vegna um 2 milljarða vangoldinnar skuldar. ALC fullyrðir hinsvegar í beiðninni að Isavia skorti lagaheimild til að halda vélinni, enda hafi Wow air ekki haft umráð yfir vélinni þegar félagið var úrskurðað gjaldþrota. ALC hafi þar að auki ekki verið tilkynnt um kyrrsetninguna fyrr en mörgum tímum eftir gjaldþrotaúrskurðinn.

Í lögum um loftferðir er kveðið á um heimild Samgöngustofu og „þess sem starfrækir flugvöll“ til að „aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.“

ALC bendir einnig á að Isavia hafi farið á skjön við eigin reglur með því að veita flugfélaginu fyrirgreiðslu með því að leyfa því að safna skuldum gagnvart sér.

Ennfremur segir í beiðninni að framganga Isavia kunni að verða til þess að leigusalar takmarki eða banni alfarið umferð véla sinna um Keflavíkurflugvöll.

7 af þeim 11 flugvélum sem Wow air starfrækti þegar félagið fór í þrot voru leigðar af ALC, en vélin sem um ræðir, TF-GPA, er af gerðinni Airbus A321-211 og var framleidd árið 2016.

Stikkorð: Isavia Wow air ALC
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim