Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í dag upp dóm í máli Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð og fleiri gegn Silicor Materials, íslenska ríkinu og Skipulagsstofnun. Snerist málið um þá ákvörðun Skipulagsstofnunnar að uppbygging sólarkísilvers Silicor Materials á Grundartanga þyrfti ekki að fara í gegn um umhverfismat.

Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri fortakslaust að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Hins vegar yrði Skipulagsstofnun að rannsaka betur og afla nánari upplýsinga en hún gerði gerði áður en ný ákvörðun um það atriði yrði tekin. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var því talinn formgalli að þessu leyti og var ákvörðunin því felld úr gildi.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Arnar Þór Stefánsson lögmaður Silicor Materials að samkvæmt dómnum sé það ljóst að Skipulagsstofnun muni þurfa að taka nýja ákvörðun og óvíst sé hver niðurstaða þeirra ákvörðunar verði. Segir hann að dómurinn einn og sér muni hafa lítil áhrif á framkvæmdina. Næstu skref séu að fyrirtækið muni útbúa nýja matskyldufyrirspurn sem Skipulagsstofnun beri að afgreiða innan fjögurra vikna lögum samkvæmt.

Í fréttatilkynningu sem Silicor Materials sendi frá sér kemur fram að fyrirtækið telur sig hafa í einu og öllu fylgt lögum, reglum og leiðbeiningum eftirlitsstofnana. Framkvæmdin hafi verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar ásamt ítarlegum upplýsingum. Skipulagsstofnun hafi síðan kallað eftir áliti allra fagstofnana og komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hefði óveruleg umhverfisáhrif í för með sér og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Þrátt fyrir að niðurstaða héraðsdóms muni hafa lítil áhrif er dómurinn ekki til að fækka vandamálum forsvarsmanna Silicor Materials. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur óvissa ríkt um fjármögnun verkefnisins og tilkynnti fyrirtækið nýlega að það hygðist hægja á undirbúningi þess. Þá greindi Rúv einnig frá því í dag að Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, byggist við því að samningi Silicor Materials við Faxaflóahafnir yrði rift vegna ítrekaðar frestunar á framkvæmdum.