Héraðsdómur Suðurlands hefur vísað frá dómi máli Brim hf. á hendur Vinnslustöðinni hf. vegna ágreinings sem á rætur sínar að rekja til aðalfundar félagsins þann 6. júli árið 2016. Deilurnar sem eru þær nýjustu í röð áralangra deilna sem ná aftur til ársins 2007 lutu að því að hvort rétt hafi verið staðið að stjórnarkjöri árið 2016.

Málavextir voru þeir að í kjöri til stjórnar Vinnslustöðvarinnar á fyrrnefndum aðalfundi hlaut Brim tvo menn í stjórn félagsins auk eins manns í varastjórn. Við talningu atkvæða kom í ljós að atkvæði eins hluthafa hafði ekki skilað sér og segir í dómnum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum að ljóst hefði verið að það atkvæði hefði ráðið úrslitum um stjórnarkjörið. Fundarstjóri ákvað þá að endurtaka skildi stjórnarkjörið. Í endurteknu stjórnarkjöri fékk Brim einungis einn fulltrúa í aðalstjórn og engan í varastjórn.

Guðmundur Kristjánsson oft kenndur við Brim og hluthafi í vinnslustöðinni er þeirrar skoðunar að framin hafi verið kosningasvik á fyrrnefndum fundi eins og Viðskiptablaðið hefur ítarlega greint frá.

Hann krafðist þess meðal annars að stjórnarkjörið yrði ómerkt og réttir aðilar að hans mati viðurkenndir sem réttkjörnir stjórnarmenn. Í millitíðinni hafði hins vegar aftur verið haldinn aðalfundur þar sem kosið var í nýja stjórn og komust dómstólar því að þeirri niðurstöðu að Brim hefði þess vegna ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu og málinu var því vísað frá.

Athugasemd frá Guðmundi Kristjánssyni: „Þessi ákveðni hluthafi sat hjá við fyrri kosninguna sem er algjörlega löglegt. Við seinni kosninguna var gegnið á hluthafann og staðið yfir honum svo viðkomandi myndi örugglega kjósa. Ástæðan var sú að þessi hluthafi er aðili að svokölluðu meirihlutahluthafasamkomulagi og þar ber öllum að fara eftir samþykktum þess. Þess vegna var hluthafinn neyddur til að kjósa í seinni kosningunni og dómarinn dæmdi ekki út frá þessu en það er þetta atriðið sem við höfðuðum málið út af."