*

miðvikudagur, 22. ágúst 2018
Innlent 16. nóvember 2016 08:54

Málörvun á degi íslenskrar tungu

Nýtt forrit fyrir spjaldtölvur á að styrkja orðaforða, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu og máltjáningu barna.

Ritstjórn
None

Í dag er dagur íslenskrar tungu og er af því tilefni útgáfudagur á smáforritinu Orðagull fyrir spjaldtölvur sem er ætlað til málörvunar nemenda.

Höfundar forritsins eru þær Ásthildur B. Snorradóttir talmeinafræðingur hjá Hafnarfjarðarbæ og Bjartey Sigurðardóttir læsisráðgjafi hjá Menntamálastofnun.

Á að styrkja orðaforða

„Orðagull miðar að því að styrkja orðaforða, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu og máltjáningu. Leitast er við að virkja áhugahvöt nemenda með því að gera námsefnið áhugavert og skemmtilegt og þannig eru m.a. nýtt þau tækifæri sem felast í smáforritum til byggja upp og viðhalda áhuga,“ segir í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðrbæ.

„Smáforritið byggir á efni sem gefið var út 2010 og notið hefur mikillar hylli. Forritið kemur til með að nýtast jafnt sem kennsluefni í leik- og grunnskólum sem og á heimilum.

Í gegnum skráningarkerfi Orðagulls er foreldrum og kennurum gert kleift að meta árangur og fylgjast með framförum.

Skráningarkerfið er sett upp á einfaldan og aðgengilegan hátt m.a. til að auðvelda kennurum vinnu við námsmat. Einnig er gert ráð fyrir að nemendur geti líka sjálfir fylgst með eigin framförum.“