*

mánudagur, 23. október 2017
Erlent 10. ágúst 2012 08:36

Manchester United á markað í dag

Verð í frumútboði Manchester United var 14 dollarar sem er lægra en lagt var upp með. Félagið er 2,9 milljarða dala virði.

Ritstjórn

Félagið Manchester United Pic seldi fyrir 233,3 milljónir Bandaríkjadala í frumútboði (IPO) á hlutum í félaginu. Manchester United er eins og flestir þekkja breskt knattspyrnufélag.

Félagið er orðið 134 ára gamalt. Glazer fjölskyldan, sem keypti félagið árið 2005, seldi 16,7 milljónir hluta fyrir 14 dollara á hlut ef marka má frétt Bloomberg um málið.

16,7 milljónir hluta jafngildir 10 prósenta hlut í félaginu. Verðbilið sem fjölskyldan bauð var 16 til 20 dollarar á hlut og söluverðið því lægra en lagt var upp með.

Almenn viðskipti með félagið hefjast í kauphöllinni í New York í dag.

Miðað við söluverðið í frumútboðinu er virði Manchester United 2,9 milljarðar Bandaríkjadala. Það er um það bil einum milljarði meira en virði spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid.