Starfsmannaþjónustan Elja hefur aðstoðað tólf dekkjaverk við að manna starfstöðvar þeirra yfir mesta álagstímann í byrjun veturs. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Til landsins hafa komið ríflega 80 manns til að leysa vanda þessara fyrirtækja á þeirri tveggja mánaða törn sem er fram undan. Hópurinn dreifist á alls 23 starfsstöðvar bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.

Erfitt að finna vinnandi hendur

Haft er eftir Helga Eysteinssyni, framkvæmdastjóra Elju, í Fréttablaðinu, að þarna sé verið að leysa það vandamál hve erfitt er að finna vinnandi hendur á Íslandi og að geta fengið starfskrafta í skemmri tíma í senn.

250 manns á vegum Elju

Eins og sakir standa, þá starfa rúmlega 250 manns við störf á vegum Elju hjá fjölbreyttri flóru fyrirtækja. Þetta dæmi sem Fréttablaðið tekur hefur því víðtækari skírskotun í fyrirtæki sem eiga erfitt með að manna stöður. Starfsmenn Elju koma margir hverjir frá Litháen, en einnig Póllandi, Ungverjalandi og Rúmeníu.