Það er nóg um að vera hjá Fasteignafélaginu Eik. Forstjóri Eikar, Garðar Hannes Friðjónsson, finnur fyrir aukinni eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði. „Eftirspurnin hefur klárlega aukist á síðustu tólf mánuðum, þá hefur hún almennilega farið af stað. Mesti þunginn hefur verið á síðustu tólf mánuðum miðað við síðastliðin ár“ segir Garðar Hannes í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann telur að skýringar á þessari auknu eftirspurn felast í betri gangi þjóðfélagsins í heild, sem skýrist að miklu magni af auknum fjölda ferðamanna hérlendis. „Þetta smitar út frá sér til annarrar atvinnustarfsemi“ tekur Garðar Hannes fram.

Hann sér fram á það að haustið og næsta ár verði einnig nokkuð sterk. Þó segir hann að eftirspurnin sé ólík eftir geirum og bendir hann á að það sé mest eftirspurn eftir hótelum í miðbænum. „Hótel eru fyrst og fremst drifin áfram vegna beinna áhrifa ferðaþjónustu. Verslun er meira drifin áfram beint og óbeint, það er bæði aukin sala til Íslendinga yfir höfuð og ferðamennirnir kaupa meira“ segir Garðar Hannes og bætir við að þegar allt gengur betur, þá hugsa fyrirtæki sér til hreyfings almennt.

Ekki spenna á markaðinum enn

Hann telur þó að það sé ekki enn komin spenna á markaðin, en að hún gæti farið að myndast.

Það er mikið um að vera hjá Eik að sögn Garðars. „Við erum að byggja upp Suðurlandsbraut 8 og 10. Þar eiga nýjar höfuðstöðvar Vodafone að vera.“ Fasteignafélagið er einnig að gjörbreyta Smáratorginu ásamt því að vinna að því að byggja læknastöð fyrir norðan. Að lokum tekur Garðar það fram að: „manni leiðist ekki.“