*

fimmtudagur, 17. janúar 2019
Innlent 20. apríl 2016 15:07

Már: Bindiskylda frekar en skattlagning

Seðlabankastjóri segir að bindiskylda á erlent fjármagn sé það sem bankinn muni skoða áfram til að hafa hemil á fjármagnsinnflæði.

Ólafur Heiðar Helgason
Haraldur Guðjónsson

Már Guðmundsson seðlabankastjóri gaf sterklega í skyn við kynningu á ritinu Fjármálastöðugleiki í dag að bindiskylda á erlent fjármagn verði það tæki sem Seðlabankinn muni hafa til skoðunar til að draga úr óhóflegu fjármagnsinnflæði. Már nefndi vaxtalausa bindiskyldu til eins árs sem dæmi í því samhengi, án þess þó að fullyrða að það yrði niðurstaðan. Áður hafði hann sagt að skattur eða bindiskylda kæmu til greina.

Á kynningunni í dag sagði Már að Seðlabankinn hafi lengi skoðað mismunandi leiðir til að hafa áhrif á fjármagnsinnflæði. Í raun kæmi þrennt til greina: skattur, bindiskylda eða beiting hefðbundinna stjórntækja peningastefnunnar.

Már sagði að skattlagning hefði meðal annars þann ókost að breytingar á henni krefðust samþykktar Alþingis, og að óhefðbundin beiting stýrivaxta til að hafa áhrif á fjármagnsinnflæði væri umdeild. Bindiskylda yrði því væntanlega niðurstaðan.

Hrein eign heimilanna aldrei meiri

Í kynningu Sigríðar Benediktsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum, kom fram að viðnámsþróttur fjármálakerfisins hafi aukist og áhættan í fjármálakerfinu enn minnkað. Arðsemi grunnrekstrar bankanna væri betri en hjá samanburðarhópum og fjármögnun þeirra fjölbreyttari en áður.

Hrein eign heimilanna hefur ekki verið meiri sem hlutfall af ráðstöfunartekjum í að minnsta kosti 20 ár. Það á við hvort sem lífeyrissjóðseign er talin með eða ekki.

Þá benti Sigríður á að gjaldeyrisforði Seðlabankans væri nú 140% af erlendum skammtímaskuldum þjóðarbúsins og þar með vel umfram það hefðbundna viðmið að gjaldeyrisforði ætti að geta mætt skammtímaskuldum.