*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 14. mars 2018 12:28

Már blæs á gagnrýnisraddir

Seðlabankastjóri telur heppilegra að halda uppi vaxtastigi á Íslandi fremur en að gengi krónunnar styrktist frekar.

Ritstjórn
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Ekki er stefnt að því að afnema bindiskyldu á erlenda fjárfestingu í skuldabréf og innlán að svo stöddu. Már Guðmundsson seðlabankastjóri gaf lítið fyrir gagnrýni á bindiskylduna á fundi í Seðlabankanum í morgun.

Már sagði gagnrýni á bindiskylduna einkum hafa verið tvennskonar. „Í fyrsta lagi er því haldið fram að hin sérstaka bindiskylda hafi stuðlað að hærri vöxtum og að í ljósi slaknandi spennu sé fremur ástæða til að örva erlenda fjárfestingu heldur en hitt. Jafnvel hefur verið fullyrt að síðustu vaxtalækkanir Seðlabankans hafi ekki skilað sér í lægri vöxtum fyrir heimili og fyrirtæki. Í öðru lagi hefur tæknileg útfærsla bindiskyldunnar sætt gagnrýni, m.a. hvað varðar eignaflokka sem falla undir bindiskyldu og hugsanleg neikvæð áhrif á virkni einstakra markaða,“ sagði Már.

Seðlabankastjóri sagði gagnrýni á hærra vaxtarstig vegna bindiskyldunnar ekki sérstaklega vel ígrunduð. Enda hafi tilgangur bindiskyldunnar verið að fremur væri haldið aftur að spennu í hagkerfinu með hærri vöxtum en með frekari gengisstykringu krónunnar. „Rökum fyrir hinni sérstöku bindiskyldu verður tæplega beint gegn henni. Án þessar bindiskyldur væru vextir hér á landi vissulega lægri en þeir eru um þessar mundir, en gengi krónunnar væri einnig hærra því miðlun peningastefnunnar væri í ríkara mæli beint í gengisfarveginn,“ sagði Már.

Már sagði hins vegar væri til skoðunar að bregðast við gagnrýni sem lýti að tæknilegri útfærslu bindiskyldunnar og eignaflokkunum sem hún nær til. Bindiskyldan tók gildi í júní 2016 og nær til erlendrar fjárfestingu í skuldabréfum og innlánum þar sem binda þarf 40% fjárfestingarinnar á vaxtalausum reikningi hjá Seðlabanka Íslands í eitt ár. 

„Seðlabankinn telur eðlilegt að fara yfir það mál og er sú vinna hafin. Afmörkun bindiskyldunnar tók mið af mati á virkni hennar en einnig komu sniðgöngusjónarmið til sögunnar. Þannig lá það sjónarmið að baki því að bindingin væri einungis til eins árs að áhrifin yrði þá mest á fjárfestingu sem ætla má að skammtímasjónarmið ráði mestu um og því líklega fremur tengdar hreinum vaxtamunaviðskiptum en annað fjármagnsinnstreymi,“ sagði Már.