„Ég held að á minni ævi hafi efnahagsástandið aldrei verið betra,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær í kjölfar þess að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur.

Már vísaði til þess að við erum með fulla atvinnu og ríflega það að lífskjörin á Íslandi séu að batna, að Ísland sé með meiri varasjóði en annars staðar. Að við séum með miklu stærri gjaldeyrisforða, að það sé miklu meira eigið fé í bankakerfinu og við erum með viðskiptaafgang og það verulegan að við eigum meiri eignir í útlöndum heldur en við skuldum. „Þannig ég man ekki eftir neinu slíku og óvenju gott,“ sagði seðlabankastjórinn.

Fyrir um mánuði voru stýrivextir lækkaðir um 0,25 prósentur og í kjölfarið lækkuðu vaxtakjör á lánamarkaði . Slíkt hið sama verður líklega upp á teningnum í þetta skiptið.