Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir það ekki skipta máli hversu mikið kröfuhafar föllnu bankanna þurfa að greiða í ríkissjóð. Lykilatriðið sé að afnám hafta fari fram án þess að ógna stöðugleika í gengi krónunnar og fjármálakerfinu. Þetta kom fram í viðtali við hann í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

„Við þurfum að hafa það í huga að markmið okkar með þessum aðgerðum, með því að vera með fjármagnshöftin og loka svo búin inni í fjármagnshöftunum, er að tryggja stöðugleika og skapa kost til þess að við getum losað höftin. Markmiðið er ekki að hámarka eitthvað tekjustreymi inn í ríkissjóðs. Enda eru engar lagaheimildir fyrir slíku markmiði,“ sagði Már.

Hefðum lent í vandræðum

Sigurjón M. Egilsson þáttastjórnandi spurði Má hvort hægt hefði verið að gera betur, til að mynda ná meiri fjármunum af kröfuhöfum. Már sagði að við hefðum lent í vandræðum ef markmiðið hefði verið að ná sem hæstri krónutölu úr búunum.

„Um leið og við erum farin að hugsa um það hvað við getum fengið margar krónur úr þessu, hugsa að við getum notað þetta í þetta og hitt - þá er þetta allt búið,“ sagði Már. Hann benti jafnframt á að með aðgerðunum væri gjaldeyrisforðinn stækkaður um 40 milljarða umfram þá upphæð sem nauðsynleg er til að halda gengi krónunnar stöðugu.

Þarf að draga úr peningamagni í umferð

Spurður um það hvaða skuldir væru greiddar niður með stöðugleikaframlögunum sagði Már að skuldin ríkissjóðs við Seðlabankann yrði greidd niður. Hann sagði að það þyrfti að finna leiðir til að greiða niður skuldir án þess að það hafi áhrif á stærðir á borð við gengi krónunnar. Það myndi gerast yfir tíma. Hins vegar yrði hluti framlagsins látinn „gufa upp“ inni í Seðlabankanum til að draga úr peningamagni í umferð.

„Aðalatriðið er þetta: Af hverju erum við með þessi gjaldeyrishöft?“ spurði Már. „Í grundvallaratriðinum er það, að það var of mikið af krónum í kerfinu. Hið mælda peningamagn er of stórt. Hluti af því er óvirkt, af því það er inni í þessum búum, í aflandskrónum eða þvíumlíkt. Ef þessu yrði öllu sleppt lausu þá myndi það flæða og taka gengið niður. Þess vegna verðum við að taka hluta af þessu og setja bara til hliðar,“ sagði hann.

Már sagði að verið væri að taka óvirkt fé til hliðar og passa að það verði ekki virkt. Spurður um það hvort þetta væru þá ekki peningar sem fara í umferð sagði Már: „Það má bara ekki gerast. Þá er tilganginum ekki náð.“