Í máli Márs Guðmundssonar og Þórarins G. Péturssonar, yfirhagfræðing Seðlabankans við fyrirspurnum í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans í morgun kom fram að ekki ætti að koma á óvart að bankinn lækki vexti nú.

Segir Már að síðasta fundargerð peningastefnunefndar sýni að skiptar skoðanir voru um hvort halda ætti vöxtunum óbreyttum líkt og hann hafði lagt til eða lækka þá um 0,25% eins og tveir af fimm nefndarmönnum vildi gera.

Nefndin væri að þreifa sig áfram

Þó voru nefndarmenn sammála um þörfina á varkárni við vaxtaákvarðanir vegna annars vegar kröftugs vaxtar eftirspurnar og hins vegar vegna styrkingar krónunnar sem hefði að einhverju leiti aukið aðhald peningastefnunnar.

Segir Már nefndina vera að þreifa sig áfram því óvissa væri um hve mikið væri hægt að lækka vexti áfram, og atkvæðagreiðslan hefði getað farið á báða vegu á fundinum í nóvember.

Þórarinn sagði að hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og fleira væri einmitt það sem bankinn hefði gert ráð fyrir í sínum spám þó það væri nú fyrst að gerast.

Þetta sagði hann aðspurður um hvort hagfelld ytri skilyrði væru ekki versnandi þó þau hefðu verið nefnd sem eitt skilyrða fyrir vaxtalækkuninni.

Meiri gengisstyrking í haust, hví ekki lækkaðir þá?

Einnig voru þeir spurðir út í það að ef vaxtalækkunin komi til af gengisstyrkingunni af hverju þeir hafi ekki lækkað í haust þegar styrkingin var enn meiri en nú.

Svar Márs var á þá vegu að ekkert hafi breyst, núverandi spá bankans gildi fram í febrúar þó hún hafi verið sett fram með miklum fyrirvörum. Styrkingin væri nú þegar komin upp fyrir það sem var talið meðaltalið fyrir þetta ár.

Vaxtamunur gæti verið að breytast

Sagði hann aðstæður núna kalla á ógurlega miklar fínstillingar, að þeir væru að þreifa sig áfram og finna þyrfti mjög fínt jafnvægi, sem þýði ekki endilega aukinn fyrirsjáanleika.

Sagði hann vaxtamuninn við útlönd fyrst og fremst vera vegna þess hve vextir eru lágir annars staðar, en nú væri það kannski eitthvað að breytast.

Innflæði ekkert með vaxtaákvörðun að gera

Aðspurður sagði Már að innflæði fjármagns hafi þó nánast ekkert með vaxtaákvörðunina að gera, en jafnframt sagði hann að vextirnir hefðu stuðlað að meiri þjóðhagslegum sparnaði en ella.

Vegna umræðu um verðbólgumarkmiðin og hvort breyta ætti um stefnu í þeim málum sagði hann núverandi fyrirkomulag verðbólgumarkmiða, sem væru stutt með þjóðhagsvarúðartækjum hafa skilað góðum árangri í að skapa jafnvægi í þjóðhagsbúskapnum.

Sagði hann jafnframt að betra væri að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn til að styðja við peningastefnuna í staðinn fyrir að neita að gera það af trúarástæðum.