Már Guðmundsson seðlabankastjóri varar við verkföllum og óhóflegum launahækkunum í yfirstandandi kjaraviðræðum í skýringarmyndbandi sem Seðlabankinn birti í morgun samhliða vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans.

„Nú slaknar á spennu í þjóðarbúskapnum en það er ekki samdráttur framundan nema að við verðum fyrir nýjum áföllum. Verkföll og launahækkanir langt umfram svigrúm yrðu slíkt áfall. Afleiðingin yrði hærri vextir og meira atvinnuleysi. Reynum að forða því,“ segir Már í myndbandinu.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun segir að nefndin muni gera það sem þurfi til að verðbólga og verðbólguvæntingar verði við markmið til lengri tíma litið „Það gæti kallað á harðara taumhald peningastefnunnar á komandi mánuðum. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, munu skipta miklu um hvort svo verður og hafa áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Verðbólga er sem stendur 3,4% en verðbólgumarkmið bankans 2,5% en með vikmörkum skal verðbólga vera á milli 1% og 4%.