Gengi krónunnar verður ráðandi þegar kemur að vaxtaákvörðunum Seðlabankans á næstu mánuðum, að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Hann sat fyrir svörum á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag.

„Það sem mun ráða vaxtastiginu næstu mánuði er gengi krónunnar, gengi krónunnar og gengi krónunnar,“ sagði Már. Sagði hann að sú yrði raunin þar til líða tæki á haustið og kjarasamningar losni.

Það sem hafi verið að setja þrýsting á krónunna undanfarið sé endurgreiðsla fyrirtækja á erlendum lánum og til að draga úr þessum þrýstingi til lengri tíma þurfi að lengja í skuldabréfunum milli gamla og nýja Landsbankans.

Verði að afskrifa krónueignir

Aftur á mati sagði hann að þessi þrýstingur muni minnka þegar opnast fyrir bankana að erlendum lánamörkuðum. Þess vegna sé sala Arion banka á skuldabréfi í Noregi því mjög ánægjuleg. Ekki megi missa gengi krónunnar of langt niður núna áður en viðsnúningur verður í eftirspurn eftir krónum með vorinu og að inngrip Seðlabankans undanfarið hafi átt að koma í veg fyrir að krónan færi of langt niður.

Már var spurður að því hvort eðlilegt væri að þrotabú bankanna og aðrir fjármagnseigendur gætu ávaxtað fé sitt á háum vöxtum á meðan vaxtastigið kæmi heimilunum sér illa. Már sagði það mikinn misskilning að þrotabú bankanna séu að ávaxta fé í miklum mæli í krónum í hári ávöxtun. Þrotabúin muni endurheimta krónur með ýmsum leiðum og þær verði að óbreyttu greiddar til kröfuhafanna. Svo komi í ljós hvernig þeir muni ávaxta þær. Þótt hægt sé að reikna það út að um sé að ræða 200 milljarða sem bætast muni á snjóhengjunna þá verði þessi upphæð á endanum lægri. Sagði hann að líklega færi uppgjör bankanna þannig að kröfuhafarnir fengju greiddan út þann gjaldeyri sem þrotabúin fái erlendis frá, en krónueignirnar verði að afskrifa að verulegu leyti.

Ekki innistæða fyrir almennum launahækkunum

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði að það skili engu til framtíðar að hækka laun langt umfram framleiðnivöxt í hagkerfinu. Hann sagði að í raun hefðu útflutningsgreinarnar efni á sæmilegum launahækkunum og að þær myndu ekki hafa áhrif til hækkunar á verðbólgu. Ekki væri innistæða fyrir almennum launahækkunum, sérstaklega í innlendri þjónustu.

Þá sagði Þórarinn að til langs tíma væri vandamál hér á landi hvað sparnaður sé lítill og sparnaðarformin væru ekki heppileg. Sparnaður Íslendinga sé aðallega í fasteignum og lífeyrissjóðum, en þessi sparnaður væri bundinn og hjálpi því ekki til í samdrætti. Eitt af vandamálunum væri þessi víðtæka skoðun að allir þurfi að eiga sitt eigið húsnæði. Því þurfi að breyta.