Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,71% í 2,3 milljarða króna viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1.799,00 stigum.

Aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði hins vegar eilítið, eða um 0,02%, og fór hún niður í 1.282,81 stig. Veltan með skuldabréf nam tæpum 4,8 milljörðum í kauphöllinni í dag.

Marel og Reginn hækkuðu mest

Gengi hlutabréfa Marel hf. hækkaði mest í kauphöllinni í dag, eða um 2,14% í 332 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 345,50 krónur.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Regins, en hún nam 1,32% í 214 milljón króna viðskiptum. Við lok viðskiptadags eru bréf félagsins nú verðlögð á 28,88 krónur.

Icelandair og N1 lækkuðu mest

Mest verðlækkun í kauphöllinni í dag var á bréfum Icelandair eða um 1,04% í 43 milljón króna viðskiptum og er gengi bréfa félagsins nú 13,35 krónur.

Næst mest verðlækkun var síðan á gengi bréfa N1 hf, um 0,42% og fást bréf félagsins nú á 118,00 krónur. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá birti félagið ársfjórðungsuppgjör síðasta árs í dag, en hagnaður félagsins tvöfaldaðist milli ára.

Mest viðskipti í kauphöllinni voru með bréf Reita fasteignafélags, eða fyrir 496 milljónir króna, en verð bréfanna stóð í stað og eru þau því enn um sinn verðlögð á 102,50 krónur.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Símans eða fyrir 453 milljónir króna en bréfin hækkuðu einungis um 0,13% og fást nú í 3,93 krónur. Líkt og með N1 hefur Viðskiptablaðið fjallað um ársfjórðungsuppgjör Símans , sem sýnir aukinn hagnað fyrirtækisins.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,7% í dag í 2,3 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,1% í dag í 3,3 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,1% í 1,1 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 2,2 milljarða viðskiptum.