Marel hefur hækkað um 10,47% það sem af er degi í viðskiptum sem nema 889 milljónum króna.

Á laugardaginn tilkynnti Marel að það hefði undirritað samning um kaup á hollenska fyrirtækinu MPS meat processing system. Kaupverðið var 382 milljónir evra eða 55 milljarðar króna.

Samhliða yfirtökunni tilkynnti Marel að félagið hefði tryggt hagstæða langtímafjármögnun til 5 ára fyrir félagið í heild. Fjármögnunin er tryggð af Rabobank og nemur nærri 670 milljónum evra og eru skilmálar og vaxtakjör í samræmi við núverandi markaðsaðstæður. Að sögn Marel gefur fjármögnunin Marel aukinn fjárhagslegan sveigjanleika og styður við vöxt og framgang félagsins.