Hagnaður Marel á fjórða ársfjórðungi 2018 nam 38 milljónum evra, eða sem samsvarar 5,2 milljörðum íslenskra króna, sem er aukning um 12,4% frá sama tíma árið 2017 þegar hagnaðurinn nam 33,8 milljónum evra. Pantanir félagsins námu 296 milljónum evra, sem var aukning frá 281,5 milljón árið áður og tekjurnar námu 330,8 milljónum evra.

Það er aukning um 12,2% milli ára fyrir tímabilið, en EBIT félagsins nam 48,2 milljónum evra, sem er aukning frá 46,2 milljónum evra árið áður. Hlutfallið minnkaði hins vegar á milli áranna úr 15,7% í 14,6%. Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 62,2 milljónum evra þessa síðustu þrjá mánuði sem er hins vegar minnkun frá árinu áður þegar það var 65,2 milljónir evra.

Fjórðungsaukning á milli ára

Hagnaður ársins 2018 nam í heildina 122,5 milljónum evra, sem er aukning um 26,4% frá árinu áður þegar það var 96,9 milljónir evra. Í krónum nam hagnaður ársins 2018 því um 16,8 milljörðum króna.

Pantanir ársins námu 1,184,1 milljónum evra, sem er aukning frá 1.143,7 milljónum árið áður, en tekjurnar fóru úr 1.038,2 milljónum evra í 1.197,9 milljónir evra. Það Samsvarar 164,6 milljörðum íslenskra króna. Handbært fé frá rekstri félagsins nam 205,8 milljónum evra sem var minnkun frá árinu 2017 þegar það var 236,2 milljónir evra.

Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel segir félagið hafa einn mesta fjölda uppsettra vinnslukerfa í heiminum.

„Sá grunnur og aukin áhersla á þjónustu við viðskiptavini skila stöðugum viðhaldstekjum sem nema 35% af heildartekjum félagsins. EBIT framlegð nam 14,6% á fjórðungnum, líkt og á árinu,“ segir Árni Oddur sem segir pantanir hafa aukist um 5% á milli ára og 10% ef miðað er við síðasta ársfjórðung.

„Viðskiptahindranir og umrót á alþjóðamörkuðum valda því að erfiðara er að tímasetja pantanir. Með alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti og framsæknu vöruframboði er Marel engu að síður í leiðandi stöðu til þess að hjálpa matvælaframleiðendum að aðlagast breyttum aðstæðum á markaði og jafna framboð og eftirspurn.

Áfram gerum við ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi að meðaltali 4-6% á ári og markmið okkar er eftir sem áður að vaxa hraðar en markaðurinn.

Með firnasterku sjóðstreymi höldum við áfram að fjárfesta í nýsköpun, markaðssókn og innviðum. Við höldum einnig áfram að styrkja vöruframboð félagsins og alþjóðlega markaðssókn með yfirtökum sem styrkja okkur í þeirri vegferð að umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu. Á síðasta ári keyptum við þýska félagið MAJA fyrir 35 milljónir evra ásamt því að kaupa eigin bréf og greiða arð fyrir samtals 100 milljónir evra. Sterkt sjóðstreymi og góð rekstrarniðurstaða viðheldur skuldahlutfallinu í x2.0 nettó skuldir/EBITDA þrátt fyrir miklar fjárfestingar á tímabilinu.“