Marel hagnaðist um 18,6 milljónir evra eða því sem nemur 2,1 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins. Á sama tímabili í fyrra hagnaðist Marel um 22,1 milljón evra.

Tekjur námu 244 milljónum evra og var EBITDA 44,2 milljónir, eða 18,1% af tekjum. Seinkun varð í tekjum vegna tímasetningu stærri verkefna. Pantanabókin stóð í 418,9 milljónum evra við lok fjórðungsins borið saman við 390,3 milljónir við lok mars síðastliðinn. Samkvæmt tilkynningu Marel til Kauphallarinnar eru markaðsaðstæður góðar og samkeppnisstaða fyrirtækisins sterk. Í byrjun þriðja ársfjórðungs var stærsta pöntun í sögu Marel tryggð með samningi við Costco og Lincoln Premium Poultry í Bandaríkjunum um nýja hátækni kjúklingaverksmiðju.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 61,2 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi. Skuldahlutfall var x2,15 (nettó skuldir/EBITDA) við lok ársfjórðungsins.

Á stjórnarfundi 26. júlí var heimild veitt til stjórnenda  til að kaupa eigin bréf fyrir allt að 15 milljónum að nafnvirði. Hlutirnir eru ætlaðir sem endurgjald í mögulegum fyrirtækjakaupum.

Í tilkynningu Marel er eftirfarandi haft eftir Árna Odd Þórðarsyni, forstjóra Marel:

„Tekjur annars ársfjórðungs námu 244 milljónum evra með nærri 15% EBIT. Dreifing á milli vöruflokka ásamt tímasetningu stærri verkefna veldur því að bókfærðar tekjur eru lægri í öðrum ársfjórðungi 2017 en búast má við á næstu misserum. Tekjur og rekstrarhagnaður fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2017 eru sambærilegar og fyrir sama tímabil á síðasta ári.

Samkeppnisstaða Marel er sterk og markaðsaðstæður eru góðar. Vöxtur pantana fyrstu sex mánuði ársins var 17% á milli ára. Í byrjun þriðja ársfjórðungs tryggði okkar frábæra teymi stærstu pöntun í sögu Marel með samningi við Costco og Lincoln Premium Poultry um hátækni kjúklingaverksmiðju í Bandaríkjunum. Marel, í samstarfi við viðskiptavini sína er að umbreyta matvælaframleiðslu með því að gera viðskiptavinum sínum kleift að framleiða hágæða matvæli á hagkvæman og sjálfbæran hátt.“