Gengi hlutabréfa í Marel fór 505 krónur í gær. Hefur gengi bréfa í fyrirtækinu aldrei verið hærra. Í gær var mánuður síðan Marel birti uppgjör fyrir 4. ársfjórðung og á þeim tíma hefur gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hækkað um ríflega 25%. Segja má að hækkunarferlið hafi hafist í byrjun desember. Þann 7. þess mánaðar stóð gengið í 367 krónum og hafa bréfin því hækkað um tæp 38% á þremur mánuðum.

Í byrjun síðasta árs stóð gengi hlutabréfa í Marel í 319 krónum, sem þýðir að síðan þá hefur hlutabréfaverðið hækkað um 58%. Á tveimur fyrstu mánuðum ársins 2018 hækkaði gengi hlutbréfanna í 370 go var gengið á bilinu 360 til 395 allt þar til í desember.

Í byrjun febrúar í fyrra var tilkynnt að Marel hefði fengið alþjóðlega ráðgjafa til að skoða skráningu félagsins í alþjóðlegri kauphöll. Valið stóð lengi á milli kauphallanna í London, Amsterdam og Kaupmannahöfn. Eftir síðasta uppgjör, sem birt var fyrir mánuði, kom í ljós að búið var að þrengja valið, sem þá stóð á milli Amsterdam og Kaupmannahafnar.

Á aðalfundi félagsins, sem haldinn var síðdegis í gær, var síðan ákveðið að skrá félagið í kauphöll Euronext í Amsterdam. Félagið hefur mikil umsvif í Hollandi en þar starfa um tvö þúsund starfsmenn Marel. Um tvíhliðaskráningu er að ræða og verða bréfin einnig skráð í Kauphöll Íslands.

Miklar hækkanir hlutabréfaverðs má má meðal annars rekja til væntinga um skráningu bréfanna erlendis, sem og góðrar rekstrarniðurstöðu. Á síðasta ári námu tekjur Marel tæplega 1,2 milljörðum evra og jukust um 15,4% frá árinu 2017. Hagnaðist félagið um 122,5 milljónir evra á árinu 2018 samanborið við 97 milljónir árið á undan. Þess má geta að árið 2005 nam velta Marel 130 milljónum evra. Þá eru starfsmennirnir nú yfir sex þúsund í um 30 löndum en árið 2002 voru þeir 800 í 11 löndum.

Greiningaraðilar hafa talið Marel eiga mikið inni. Sem dæmi má nefna nýlegt verðmat Capacent, sem telur Marel undirverðlagt og hlutabréfagengið ætti að vera 562 krónur á hlut.

Í verðmatinu er bent á að rekstrarhagnaðarhlutfall (EBIT) hafi hækkað hratt síðustu ár. Þá spáir Capacent því að Marel muni ekki fara í fleiri yfirtökur að sinni og einskiptiskostnaður muni því hverfa. Marel hefur verið í miklum yfirtökum síðustu ár. Síðast en ekki síst telur Capacent að Marel sé enn í ódýrari kantinum í samanburði við sambærileg erlend fyrirtæki.

Í fyrra keypti Marel þýska fyrirtækið Maja, sem framleiðir búnað fyrir kjötvinnslu og árið 2017 keypti það brasilíska fyrirtækið Sulmaq, sem framleiðir einnig búnað fyrir kjötvinnslu. Á árunum þar á undan hafði Marel keypt fyrirtækin MPS, Stork og Scanvaegt. Fyrirtækið er í dag mjög sterkt á sínum markaði. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, benti á í viðtali í tímaritinu Áramót að þó Marel hafi velt 1,2 milljörðum evra í fyrra þá séu neysluverðmæti á fiski, kjöti og kjúklingi metin á 1.200 milljarða króna á ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .