Marel hefur keypt 5 milljón hluti í fyrirtækinu á 377 krónur hvern hlut, en þetta er þriðji viðskiptadagurinn í röð sem fyrirtækið hefur keypt í sjálfum sér.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær keypti fyrirtækið fyrir ríflega 750 milljónir króna í sjálfum sér á mánudag, þegar keyptir voru 2 milljónir hluta og 1,1 milljarð fyrir helgi þegar 3 milljónir hluta voru keyptir.

Heildarkaupverð hlutanna sem keyptir voru í dag eru 1.885 milljónir króna. Í heildina hefur félagið því keypt í sjálfum sér fyrir ríflega 3,7 milljarða króna. Kaupverð hlutanna í gær nam 378,50 krónur, en á föstudag var keypt fyrir 367,50 krónur hvert bréf.

Þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa Marel hækkað um 0,53% í rétt rúmlega 2 milljarða viðskiptum og standa bréfin í 377,50 krónum. Viðskiptin eru gerð á grundvelli heimildar frá stjórn Marel hf. til kaupa á allt að 20 milljónum hluta, en á síðustu þremur dögum hefur fyrirtækið keypt 10 milljónir hluta.