Niðurstöður rannsókna á Drekasvæðinu, sem kynntar voru á fundi sérleyfishafa á mánudaginn, gefa góð fyrirheit. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins benda niðurstöðurnar til þess að á svæðinu sé margfalt meira af olíu en áður var talið. Þar séu bæði stórar og meðalstórar olíulindir.

Tveir hópar félaga eru með leitar- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu. Annar hópurinn er leiddur af kínverska félaginu CNOOC, sem á 60% hlut, norska félagið Petoro á 25% og íslenska félagið Eykon Energy á 15%. Fulltrúum íslenska félagsins hefur verið bannað að tjá sig um niðurstöður rannsóknanna, meðal annars vegna þess að eftir á að semja við birgja um ýmislegt.

Vill hópurinn því greinilega halda spilunum þétt að sér í bili. Enn er stefnt að því að hefja borun á svæðinu árið 2020, þeim áformum verður ekki flýtt þrátt fyrir einkar jákvæðar niðurstöður úr rannsóknum. Í fyrstu verður boruð tilraunahola og ef olía finnst verður henni breytt í vinnsluholu.