Kjartan Smári Höskuldsson, forstöðumaður hjá VÍB, tekur fyrirhuguðum áformum um losun fjármagnshafta fagnandi og segir að um frábærar fréttir sé að ræða fyrir sparifjáreigendur.

„Þetta er skref sem við höfum beðið spennt eftir lengi og við teljum að þetta komi á mjög heppilegum tíma fyrir margra hluta sakir. Þetta þýðir að sparifjáreigendur sem hafa eingöngu getað byggt upp sinn sparnað á Íslandi frá árinu 2008 fá nú loksins tækifæri til að dreifa sparnaði sínum og eignum utan landsteinanna,“ segir Kjartan Smári.

Hann telur stjórnvöld ekki hafa verið of varkár í þeim aðgerðum sem kynntar voru á dögunum.

„Mér finnst þetta vera mjög skynsamlega langt gengið, nógu langt til að þetta nýtist nánast öllum hefðbundnum aðilum. Við teljum það vera vel gert að ganga þó þetta langt og margir áttu von á minna og hóflegra skrefi.“

Kjartan segir mikilvægt að íhuga vandlega hvernig fjárfestingum sé varið í stað þess að stökkva bara með peninga úr landi við fyrsta tækifæri.

„Það er mjög mikilvægt að sparifjáreigendur hugsi sín skref og tímasetji þau vel og leiti sér ráðgjafar hjá aðilum sem eru inni í erlendu mörkuðunum. Það er alveg á hreinu að erlendir hlutabréfamarkaðir eru ekki ódýrir og þeir hafa hækkað gríðarlega mikið frá því að Íslendingum var bannað að fjárfesta erlendis árið 2008. Jafnframt er töluverð áhætta inni á mörkuðum, þannig það er engin ástæða til að hlaupa til og ætla að gera einhverjar stórar breytingar í stórum skrefum um leið og höftunum er aflétt,“ segir Kjartan

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .