

Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri Wow air, er opinn fyrir því að selja hluti í lágjaldaflugfélaginu Wow air til að auðvelda aðgengi félagsins að nýjum mörkuðum og tryggja lægra verð á flugvélum. Þetta kom fram í viðtali við Skúla hjá Bloomberg fyrir skömmu. Skúli staðfestir þetta við Viðskiptablaðið.
„Margir hafa sýnt félaginu áhuga og það gæti vel verið áhugavert að fá inn „strategíska“ fjárfesta sem gætu aðstoðað Wow air í að sækja á enn fleiri markaði,“ segir Skúli. Félagið er þó ekki sérstaklega að leita að erlendum samstarfsaðila, heldur miklu frekar opið fyrir möguleikanum á samstarfi þegar réttur aðili sýnir sig.
Skúli, sem er eini eigandi Wow, sér fyrir sér að á næstu tveimur árum kæmi til greina að selja hlut í Wow til alþjóðlegs samstarfsaðila sem gæti komið með fleira að borðinu en fjármagn. Með því á hann við samstarfsaðila sem gæti tryggt Wow aðgang að nýjum mörkuðum eða gert félaginu kleift að kaupa flugvélar á lægra verði, sem Skúli segir að séu stærsti kostnaðarliður félagsins. Slíkt myndi hjálpa styðja við næstu skref í vexti fyrirtækisins.
Kjarnastarfsemin í forgangi á næstunni
Félagið hefur átt góðri lukku að stýra undanfarin ár og fest sig í sessi sem lággjaldaflugfélag sem meðal annars tengir Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu á Íslandi. Næstu skrefin sem Skúli talar um í viðtali við Bloomberg gætu verið að koma sér betur fyrir í Evrópu og bjóða beint flug milli Evrópu og Norður-Ameríku annars vegar og flug frá Íslandi til Asíu hins vegar. Skúli segir félagið stefna að 40% fjölgun farþega á komandi ári.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð. Meðal annars efnis í blaðinu er: