Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað svo mikið hér á landi að nú er svo komið að þeir sem hingað koma á hátíðina Hönnunarmars í mars hafa lent í vandræðum með gistingu. Gistirými eru laus en hópar hafa lent í því að þurfa að skipta sér niður á nokkra gististaði.

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar þar sem íslensk hönnun er í aðalhlutverki, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að sýningin hafi á sínum tíma verið haldin í mars þegar lítið var að gerast fyrir erlenda verðamenn. Það sé hins vegar liðin tíð.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustu, segir í samtali við blaðið að vel hafi gengið a markaðssetja Ísland fyrir vetrarferðamennsku. Hún bendir á að hingað til lands hafi komið 30% fleiri ferðamenn í nóvember og desember í fyrra en ári fyrr. Hún segir aukninguna kærkomna enda hafi þetta verið erfiðir mánuðir í gegnum tíðina. Hún segir markaðssetningu landsins hafa gengið vel.

„Auðvitað þurfum við alltaf að markaðssetja, þetta auglýsir sig ekki sjálft. Ýmislegt hefur hjálpað okkur, eins og Eyjafjallagosið, en það var til langs tíma gríðarlega góð markaðssetning fyrir Ísland,“ segir hún.