Ef nást á sá árangur sem að var stefnt í samkomulagi SA og ASÍ um að halda verðlagi í hófi hér á landi verður gera starfsumhverfi íslenskrar verslunar samkeppnishæfara að mati Margrétar Kristmannsdóttur, formanns Samtaka verslunar og þjónustu. Hún er meðal frummælenda á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem haldinn verður á fimmtudaginn næstkomandi. Yfirskrift fundarins er „Er skattbyrðin að sliga fyrirtækin?“

„Í mínu erindi ætla ég að leggja áherslu á mína atvinnugrein, þ.e. verslunina, og þá skatta og gjöld sem við erum að berjast við og eru að hækka upp úr öllu valdi. Það eru aðallega tollar og vörugjöld. Það er alltaf verið að tala um sjávarútveg og landbúnað og skattlagningu á þær greinar, en verslunin skiptir ekki síður máli. Til dæmis á núna að hækka matvælaverð um heilan milljarð króna með þessum svokallaða sykurskatti, sem á að taka gildi 1. mars næstkomandi. Núna er janúar að verða búinn og menn hafa enn enga hugmynd um hvernig á að útfæra þennan skatt.“

Fundurinn er haldinn í Sunnusal á Hótel Sögu klukkan 12:00 á fimmtudaginn næstkomandi, en aðrir frummælendur á fundinum verða þeir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Así, og Stefán Ólafsson, prófessor og forstöðumaður Þjóðmálastofnunar.