Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur ráðið Margréti Arnardóttur, vélaverkfræðing og viðskiptafræðing, sem framkvæmdastjóra tæknisviðs Ölgerðarinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Margrét er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og MSc gráðu í vélaverkfræði frá háskólanum í Álaborg í Danmörku.  Þá stundaði hún nám í bifvélavirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík.

Margrét Arnardóttir starfaði áður sem verkefnastjóri vindorku hjá Landsvirkjun frá árinu 2012 og hjá Rio Tinto Alcan í Straumsvík frá árinu 2003, þar sem hún stýrði m.a. starfsemi kersmiðju og síðar endurhönnun á rafbúnaði vegna straumhækkunar í kerskálum.  Margrét situr í fagráði Tækniþróunarsjóðs og er varamaður í stjórn Lífsverks, lífeyrissjóðs verkfræðinga.

Margrét tekur við starfi framkvæmdastjóra tæknisviðs Ölgerðarinnar af Ingibjörgu Ólafsdóttur.