Margrét Sanders var endurkjörin formaður Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) á aðalfundi samtakanna sem var haldinn í dag. Margrét er ráðgjafi hjá Strategíu og hefur setið sem formaður samtakanna frá árinu 2014. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Einnig voru kjörnir þrír meðstjórnendur í stjórn SVÞ fyrir kjörtímabilið 2017 til 2019 en þeir eru:

  • Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar ehf.
  • Gústaf B. Ólafsson, framkvæmdastjóri Parka ehf.
  • Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar hf.

Þeir sem sitja fyrir í stjórn SVÞ eru Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Festi hf., Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands hf. og Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Kvosin ehf.

„Verslun og þjónusta á Íslandi stendur á tímamótum, samkeppnin hefur aldrei verið meiri og áskoranir hafa sjaldan verið jafn margar. Samtökin hafa löngum barist fyrir afnámi tolla og gjalda. Nú um áramótin var síðasti tollamúrinn afnuminn og telja samtökin það mikið framfaraskref fyrir neytendur og verslunareigendur. Við höfum einnig talað fyrir því að ríki og sveitarfélög úthýsi mun fleiri verkefnum til einkafyrirtækja. Það hefur jákvæð áhrif á nýsköpun og þróun og eykur jafnframt skilvirkni og dregur úr kostnaði.“ segir Margrét Sanders, formaður SVÞ.