Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ansi margt jákvætt í stjórnarsáttmálanum, sem lýtur að ferðaþjónustunni.

„Við fögnum sérstaklega áherslu á umhverfismál og náttúruvernd sem og aukna áherslu á öryggis- og löggæslumál," segir Helga. „Auðvitað hefðum við viljað sjá nánari útfærslu þeirra þátta sem koma fram og lúta að ferðaþjónustunni en við viljum trúa því að orðum fylgi efndir og framkvæmdir.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið sett á laggirnar sérstakt ráðuneyti ferðamála eins og við höfum kallað eftir má ætla að málaflokknum verður gert hærra undir höfði þar sem ráðherra ferðamála ber nú heitið ráðherra ferða-, iðnar- og nýsköpunarmála en ekki iðnaðar- og nýsköpunar eins og áður. Þá hefur nýtt samgönguráðuneyti orðið að veruleika og er það í línu við áherslur ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu og viðhald samgangna sem við fögnum sérstaklega enda eru öruggar samgöngur lífæð ferðaþjónustunnar."

Helga fagnar því að tryggingjaldið verði lækkað og að skattkerfið einfaldað.

„Þá leggur ný ríkisstjórn áherslu á stöðugleika í gengismálum, ábyrgð í ríkisfjármálum og sátt á vinnumarkaði sem eru grunnforsendur heilbrigðs rekstrarumhverfis fyrirtækja.  Við fögnum því sérstaklega þessum áherslum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .