Maríanna H. Helgadóttir var kjörin nýr formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) á aðalfundi félagsins sem haldinn var 8. apríl sl.

Maríanna er menntuð í búvísindum og stjórnsýslufræðum og stundar nám í lögfræði við Háskóla Íslands. Frá árinu 2006 hefur hún verið framkvæmdastjóri félagsins en sat í stjórn þess frá 1999 til 2004.

Maríanna tekur við formennsku í félaginu af Páli Halldórssyni eðlisfræðingi sem lætur nú af störfum eftir að hafa verið í framvarðasveit FÍN og Bandalags háskólamanna (BHM) í um þrjá áratugi. Páll var fyrst kjörinn í trúnaðarstörf hjá FÍN árið 1986 og hefur setið í stjórn og/eða kjararáði félagsins og gegnt formennsku með hléum allt frá þeim tíma. Hann var formaður Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna (BHMR) frá 1988 til 1994 og formaður BHM frá 1994 til 1996. Frá árinu 2008 hefur Páll verið varaformaður bandalagsins og gegndi aftur formennsku um skeið 2014 til 2015 jafnframt því að vera formaður samninganefndar aðildarfélaga þess.